Fundargerð undirbúningshóps fyrir félag um mannerfðafræði á Íslandi.

13.10.2010

Fundargerð undirbúningshóps fyrir félag um mannerfðafræði á Íslandi.

Fundurinn var haldinn þann 11. ágúst 2010 kl. 15.00 á skrifstofu Vigdísar Stefánsdóttur í K-byggingu Landspítala við Hringbraut.

Viðstaddir voru: Birkir Þór Bragason, Guðný Eiríksdóttir, Reynir Arngrímsson og Vigdís Stefánsdóttir. Fundarefni var eitt: stofnun félags um mannerfðafræði á Íslandi.

Upplýsingar varðandi stofnun slíks félags frá European Society of Human Genetics (ESHG) höfðu borist Vigdísi og voru þær skoðaðar.

Ákveðið var að skrá þyrfti félagið í samræmi við íslensk lög, búa til félagslög í samræmi við félagslög annarra aðildarfélaga ESHG og ákveða dagsetningu fyrir stofnfund.

Einnig þarf að ákveða nafn félagsins og var komin fram tillaga um að enska heitið væri: Icelandic Human Genetics Society og hið íslenska: Íslenska mannerfðafræðifélagið eða Hið íslenska mannerfðafræðifélag.

Með því væri enska skammstöfunin IHGS – sem er ekki til hjá ESHG. Reyndar er the Institute of Heraldic and Genealogical Studies með sömu skammstöfun svo ef til vill væri rétt að skoða heitið betur. Fyrir eru ISHG – írska félagið og ISHG ítalska félagið sem reyndar heitir á ítölsku: Societá Italiana di Genetics Umana sem myndi þá bera skammstöfunina: SIGU.

Annað sem rætt var á fundinum var að óska þyrfti eftir framboðum í stjórn félagsins, búa til kynningarblað og kaupa lén hjá Isnic og setja upp heimasíðu. Einnig árgjald sem standa þarf undir kostnaði. Sá kostnaður er fyrst og fremst kaup á léni og árgjald ásamt mögulegu skráningargjaldi í félagaskrá.

Lítillega var rætt um viðbrögð íslenskrar erfðagreiningar en forstjóri félagsins hafði haft samband við Vigdísi og lýst óánægju sinni með að svona félag væri stofnað án hans umsjónar. Hann kvað fyrirtækið hafa um langa hríð verið að undirbúa stofnun slíks félags og að ekki væri rúm fyrir tvö félög.

Fundarmenn voru á einu máli um að félag um mannerfðafræði ætti að vera opið öllum og laust við tengsl við hverskonar fyrirtæki og stofnanir. Öðruvísi gæti það ekki starfað.

Vigdís tók að sér að þýða lögin, knna verð á léni  og boða til næsta fundar. Í millitíðinni gerðist það að Birkir taldi sig ekki geta verið í hópnum vegna mögulegra conflikta við íslenska erfðagreiningu. Í hans stað kemur Ísleifur Ólafsson.

Vigdís Stefánsdóttir.

Þessi færsla var birt undir Fundargerðir. Bókamerkja beinan tengil.